EXTRAVAGANZA!

Soðið svið mun frumsýna glænýtt verk eftir Sölku Guðmundsdóttur á Litla sviði Borgarleikhússsins þann 27. október næstkomandi. Leikstjóri er Ragnheiður Skúladóttir og að sýningunni kemur einvala lið sviðslistafólks.

Lýdía býr í fyrrum félagsblokk í úthverfi Reykjavíkur sem breytt hefur verið í gistirými fyrir ferðamenn. Gegn því að tékka ferðamenn inn og út úr blokkinni og afgreiða í lundabúðinni sem rekin er í sameigninni leyfir fasteignafélagið Porcellus henni að búa þar áfram. Án vitundar Porcellus hefur áhugasagnfræðingurinn Guðbrandur Númi hreiðrað um sig í geymslurými en fer um borgina að næturlagi í leit að púslum í borgarsöguna. Þegar Porcellus tekur að ógna tilveru þeirra beggja taka þau höndum saman um að láta drauma sína rætast: Þau setja upp epíska Reykjavíkurrevíu Guðbrandar í blokkinni og safna fé til að fljúga Lýdíu á vit milljónamæringa á samkomunni Super Life Extravaganza í Düsseldorf.

EXTRAVAGANZA! er grátbroslegt gamanleikrit sem skyggnist inn í hin leyndu skúmaskot sálar- og borgarlífsins.

Leikarar: Aðalbjörg Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson, María Heba Þorkelsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson

Leikmynd: Brynja Björnsdóttir

Tónlist/hljóðmynd: Ólafur Björn Ólafsson

Búningar: Þórunn Elísabet Sveinsdóttir

Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson

Extravaganza

Hættuför í Huliðsdal – síðustu sýningar

Nú höfum við síðan fyrir jól sýnt Hættuför í Huliðsdal í Kúlu Þjóðleikhússins og fengið fjöldann allan af kátum og spenntum leikhúsgestum með okkur í ævintýraför þeirra Eyju, Hrapps og allra hinna. Við erum hæstánægð með að hafa fengið tækifæri til að taka aftur upp sýningar eftir gott gengi á síðasta leikári. Þó er farið að síga á seinni hlutann; við munum brátt rýma til fyrir nýjum verkefnum í Kúlunni og því eru aðeins örfáar sýningarhelgar eftir.

Tryggið ykkur miða á þessa spennandi og skemmtilegu barnasýningu hér eða í miðasölu Þjóðleikhússins.

Hættuför snýr aftur – miðasala hafin

Barnaleikritið Hættuför í Huliðsdal sem hætti fyrir fullu húsi í Kúlunni í fyrravetur er nú væntanlegt aftur á fjalirnar. Leikhópurinn er í óða önn að hita sig upp fyrir sýningatörnina og því fylgir mikil tilhlökkun að fá aftur að ferðast inn í þennan magnaða dal með þeim Eyju, Hrappi, afa, Bryngerði og öllum hinum skrautlegu persónunum.

Við vekjum sérstaka athygli á því að sýningafjöldi er takmarkaður. Síðasta vetur komust mun færri að en vildu og við hvetjum leikhúsgesti til að tryggja sér miða sem fyrst.

Einnig bendum við foreldrafélögum og öðrum hópum á að sýningin hentar vel breiðum aldurshópi frá 6 ára og upp úr. Þeim sem hafa áhuga á að panta fyrir hópa eða kaupa heilar sýningar er bent á að snúa sér til miðasölu Þjóðleikhússins.

Miðasala er nú hafin á sýningar í desember en þegar er þó uppselt á fyrstu sýninguna.

Miða á Hættuför í Huliðsdal má nálgast hér eða með því að hafa samband við miðasöluna í Þjóðleikhúsinu, s: 551-1200 eða á netfanginu midasala@leikhusid.is.

Þetta höfðu gagnrýnendur að segja um sýninguna í fyrravetur:

***** JVJ, Fréttablaðinu: „Frábær nýr íslenskur barnaleikur sem á langa lífdaga skilið.“

**** SBH, Morgunblaðinu: „Full ástæða er til að óska aðstandendum sýningarinnar til hamingju með útkomuna sem er í senn þrælspennandi, bráðskemmtileg og hjartnæm. Það ætti því enginn að láta þessa vönduðu barnasýningu framhjá sér fara.“

ÞES, Víðsjá: „Hér er komin vönduð, innihaldsrík og bráðskemmtileg sýning fyrir börn á grunnskólaaldri og okkur hina nördana líka ef út í það er farið. … Við þurfum fleiri svona sýningar fyrir börn.“

Súldarsker ferðast til Gdansk

Salka skrapp nýlega til Gdansk til að fylgjast með leiklestri á verki sínu, Súldarskeri (Mżawka Górna), í leikstjórn Wojteks Zrałek-Kossakowski sem vann mikið út frá hljóðupptökustefinu sem er rauður þráður gegnum verkið, rammaði leikritið inn með hugmyndaríkri hljóðmynd og dró þannig fram nýja og áhugaverða fleti. Leikhúsið Teatr Miniatura sem sérhæfir sig í barna- og fjölskylduleikhúsi stóð fyrir leiklestrinum í tengslum við uppfærslu á verki Andra Snæs Magnasonar, Bláa hnettinum, en í leikhúsinu var flutt fjölbreytt íslensk-pólsk menningardagskrá í tali, tónum og myndum. Á leiklestrinum var fullt hús áhugasamra áhorfenda og í kjölfarið fóru fram pallborðsumræður um íslenska leikritun. Smellið hér til að skoða skemmtilegar myndir frá íslensku menningardögunum í Gdansk og til að kynna ykkur metnaðarfullt starf Teatr Miniatura.

Hættuför fær frábærar viðtökur

8. september síðastliðinn frumsýndum við nýja verkið okkar, Hættuför í Huliðsdal, fyrir fullum sal af skemmtilegum leikhúsgestum í Kúlu Þjóðleikhússins. Það er skemmst frá því að segja að viðtökurnar hafa verið alveg frábærar. Svo við vitnum í nokkra gagnrýnendur:

***** JVJ, Fréttablaðinu: „Frábær nýr íslenskur barnaleikur sem á langa lífdaga skilið.“

**** SBH, Morgunblaðinu: „Full ástæða er til að óska aðstandendum sýningarinnar til hamingju með útkomuna sem er í senn þrælspennandi, bráðskemmtileg og hjartnæm. Það ætti því enginn að láta þessa vönduðu barnasýningu framhjá sér fara.“

ÞES, Víðsjá: „Hér er komin vönduð, innihaldsrík og bráðskemmtileg sýning fyrir börn á grunnskólaaldri og okkur hina nördana líka ef út í það er farið. … Við þurfum fleiri svona sýningar fyrir börn.“

SA, tmm.is: „Þetta er skemmtileg og hressileg sýning með fallegan og vandaðan boðskap.“

Miðasala hafin á Hættuför

Þá er miðasalan farin í gang á Hættuför í Huliðsdal, glænýju barnasýninguna okkar sem verður frumsýnd í Þjóðleikhúsinu þann 8. september næstkomandi. Sýningin er ætluð ævintýraglöðu fólki á aldrinum 6 ára og upp úr. Við viljum vekja sérstaka athygli á því að Hættuför í Huliðsdal er einungis sýnd í Reykjavík í september – en mun skjóta upp kollinum hjá Leikfélagi Akureyrar næsta vor. Því hvetjum við leikhúsgesti til að panta sér miða sem allra fyrst.

Verkið skrifar Salka Guðmundsdóttir en Harpa Arnardóttir leikstjóri setur upp. Hópurinn á bak við Súldarsker kemur hér saman á ný – Þórunn Elísabet Sveinsdóttir hannar búninga, Brynja Björnsdóttir sér um leikmyndina, Egill Ingibergsson er með lýsingu og Ólafur Björn Ólafsson hefur samið skemmtilega og fallega tónlist fyrir ævintýraheiminn í Huliðsdal. Leikararnir sem hætta sér inn í þennan dularfulla dal eru þau Aðalbjörg Árnadóttir, Guðmundur Ólafsson, Hannes Óli Ágústson og Maríanna Clara Lúthersdóttir.

AGDA_POSTER-MINNA

Soðið svið vinnur til verðlauna

Að lokinni magnaðri fjögurra vikna rússíbanareið á Adelaide Fringe kvaddi Breaker-hópurinn Ástralíu og andfætlinga. Uppfærslan fór afar vel í gesti hátíðarinnar sem og gagnrýnendur, og rúsínan í pylsuendanum var svo lokakvöldið en þá hreppti Soðið svið Edinborgarverðlaun Underbelly fyrir uppsetninguna (á myndinni eru leikararnir Finn den Hertog og Hannah Donaldson ásamt Stephen Makin frá Underbelly) en Underbelly er einn af fremstu sýningarstöðunum á Fringe-hátíðinni í Edinborg. Við erum að sjálfsögðu himinlifandi yfir að Breaker fái að leggja land undir fót á ný – fylgist með!

Weslo Guide kominn út

Holden Street Theatres þar sem við munum sýna á Adelaide Fringe 2013 voru að senda frá sér bækling með upplýsingum um það sem í boði er hjá þeim á hátíðinni í ár. Breaker verður frumsýnt í The Arch í Holden Street Theatres 15. febrúar næstkomandi. Skoðið endilega Weslo Guide, dagskráin er virkilega girnileg!

Salka í viðtali um Breaker

Nú líður að því að við leggjum land undir fót og förum á Adelaide Fringe með nýju sýninguna okkar, Breaker. Æfingar eru í fullum gangi í Edinborg og leikstjórinn Graeme Maley vinnur ötullega að uppfærslunni ásamt leikurunum Finn den Hertog og Hönnuh Donaldson. Leikskáldið Salka Guðmundsdóttir gaf sér tíma til að svara nokkrum spurningum frá Stage.is sem er vefur Leiklistarsambands Íslands. Hér má lesa viðtalið (sem er á ensku) og fræðast um sköpunarferlið, samstarf íslenska og skoska listafólksins og hvernig það er að vera íslenskt leikskáld sem reynir að fóta sig erlendis.

Á leið til Adelaide

Hópurinn sem stendur að Breaker er önnum kafinn við undirbúning fyrir sviðslistahátíðina Adelaide Fringe en sýningin verður sett upp í Holden Street Theatres og sýnd frá 15. febrúar til 17. mars. Við erum í The Arch sem er afar fallegt rými í þessu skemmtilega leikhúsi. Leikstjórinn Graeme Maley og leikararnir Hannah Donaldson og Finn den Hertog eru nú við æfingar í Edinborg og farin að hlakka mikið til að fljúga til Ástralíu og hefja sýningar. Við vonumst eftir hóflegum hita í Adelaide enda hvorki Íslendingar né Skotar sérlega vanir miklum hitabylgjum!

Miða er hægt að bóka hjá The Fringe eða hjá Venue*Tickets, skellið ykkur á miða! Svo er líka mjög ódýrt og stutt að fara til Adelaide frá Íslandi …