Hættuför snýr aftur – miðasala hafin

Barnaleikritið Hættuför í Huliðsdal sem hætti fyrir fullu húsi í Kúlunni í fyrravetur er nú væntanlegt aftur á fjalirnar. Leikhópurinn er í óða önn að hita sig upp fyrir sýningatörnina og því fylgir mikil tilhlökkun að fá aftur að ferðast inn í þennan magnaða dal með þeim Eyju, Hrappi, afa, Bryngerði og öllum hinum skrautlegu persónunum.

Við vekjum sérstaka athygli á því að sýningafjöldi er takmarkaður. Síðasta vetur komust mun færri að en vildu og við hvetjum leikhúsgesti til að tryggja sér miða sem fyrst.

Einnig bendum við foreldrafélögum og öðrum hópum á að sýningin hentar vel breiðum aldurshópi frá 6 ára og upp úr. Þeim sem hafa áhuga á að panta fyrir hópa eða kaupa heilar sýningar er bent á að snúa sér til miðasölu Þjóðleikhússins.

Miðasala er nú hafin á sýningar í desember en þegar er þó uppselt á fyrstu sýninguna.

Miða á Hættuför í Huliðsdal má nálgast hér eða með því að hafa samband við miðasöluna í Þjóðleikhúsinu, s: 551-1200 eða á netfanginu midasala@leikhusid.is.

Þetta höfðu gagnrýnendur að segja um sýninguna í fyrravetur:

***** JVJ, Fréttablaðinu: „Frábær nýr íslenskur barnaleikur sem á langa lífdaga skilið.“

**** SBH, Morgunblaðinu: „Full ástæða er til að óska aðstandendum sýningarinnar til hamingju með útkomuna sem er í senn þrælspennandi, bráðskemmtileg og hjartnæm. Það ætti því enginn að láta þessa vönduðu barnasýningu framhjá sér fara.“

ÞES, Víðsjá: „Hér er komin vönduð, innihaldsrík og bráðskemmtileg sýning fyrir börn á grunnskólaaldri og okkur hina nördana líka ef út í það er farið. … Við þurfum fleiri svona sýningar fyrir börn.“