Súldarsker ferðast til Gdansk

Salka skrapp nýlega til Gdansk til að fylgjast með leiklestri á verki sínu, Súldarskeri (Mżawka Górna), í leikstjórn Wojteks Zrałek-Kossakowski sem vann mikið út frá hljóðupptökustefinu sem er rauður þráður gegnum verkið, rammaði leikritið inn með hugmyndaríkri hljóðmynd og dró þannig fram nýja og áhugaverða fleti. Leikhúsið Teatr Miniatura sem sérhæfir sig í barna- og fjölskylduleikhúsi stóð fyrir leiklestrinum í tengslum við uppfærslu á verki Andra Snæs Magnasonar, Bláa hnettinum, en í leikhúsinu var flutt fjölbreytt íslensk-pólsk menningardagskrá í tali, tónum og myndum. Á leiklestrinum var fullt hús áhugasamra áhorfenda og í kjölfarið fóru fram pallborðsumræður um íslenska leikritun. Smellið hér til að skoða skemmtilegar myndir frá íslensku menningardögunum í Gdansk og til að kynna ykkur metnaðarfullt starf Teatr Miniatura.